Site logo

Golfvellir

Fyrir þá sem hafa áhuga á golfi þá er upplagt að koma á Costa Blanca svæðið. Þar er auðvelt að sameina golfið og eiga skemmtilegt frí í einstakri veðurblíðu á Spáni.

Það má með sanni segja að Costa Blanca svæðið sé draumur golfara vegna þess að þar er mikill fjöldi frábærra golfvalla þar sem allir geta fundið skemmtilega velli við sitt hæfi. Margir vallanna á svæðinu eru glæsilega hannaðir, þar sem fer saman fallegt landslag, mikill trjágróður og ótrúlegar vatnshindranir. Tveir þekktustu golfarar Spánar, Seve Ballesteros og Jose Maria Olazabal hafa tekið þátt í hönnun margra þeirra. Vellirnir eru mjög mismunandi ,opnir, þröngir, stuttir, langir og því mjög skemmtilegt að spila á sem flestum til að fá sem mesta fjölbreytni. Hér fyrir neðan eru nokkrir skemmtilegir vellir en alls ekki tæmandi upptalning.

Campoamor – 18 holur

Skemmtilegur völlur sem liggur í tveimur dölum sem gerir það að verkum að það er yfirleitt logn á vellinum. Völlurinn er frekar opinn og því hægt að slá langt á honum en flatirnar eru mjög hraðar sem gerir hann erfiðan.
Glæsilegt klúbbhús er við völlinn og þar er að finna gott veitingahús.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallararins: www.lomasdecampoamor.es/

La Finca – 19 holur

Sennilega einn skemmtilegasti völlurinn á svæðinu. Erfiðar vatnshindranir, þúsundir pálmatrjáa og fjölbreytilegt landslag gera það að verkum að þetta er völlur sem allir alvöru golfarar verða að spila á. Flötin á sjöundu braut er umkringd glompum, fimmta og sjötta braut liggja meðfram fallegu vatni og það eru nokkrir fossar á vinstri hönd sem setja mikinn svip á völlinn.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.lafincaresort.com

La Serena – 18 holur

Þessi glæsilegi völlur hefur þá sérstöðu að hann er alveg niður við Costa Blanca ströndina við bæinn Las Alcazares. La Serena golfvöllurinn er hannaður af Manuel Piñero, þeim kunna golfara sem í tvígang spilaði með liði Evrópu í Rydernum.  Þó völlurinn allur sé tiltölulega flatur og ekki mjög langur þá ættu menn að varast þá hugmynd að um sé að ræða léttan völl.  Hér snýst allt um að vera nákvæmur og á boltanum. 

Glæsilegt klúbbhús er við völlinn og þar er mjög gott veitingahús.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.laserenagolf.es 

Roda Golf – 18 holur

Mjög fallegur völlur í glæsilegu landslagi.

Fyrsta holan gefur tóninn. Par fimm hola, um 500 metra löng og þeir högglengri verða strax að gera upp við sig hvort þeir ætli að reyna að fljúga kúlunni yfir glompu hægra megin eða reyna að slá öruggt til vinstri. Annað höggið þarf að vera nákvæmt til að undirbúa innáhögg því flötin er vel vernduð af stórri glompu vinstra megin frá golfaranum séð. Og þannig má áfram telja.

Sjöunda holan er til að mynda spennandi, reyndar fremur ógnvekjandi ef menn eru þannig innstilltir, flötin úti á eyju og um 170 metra löng. Flötin er fyrir framan klúbbhúsið og því dugir ekki að vera feiminn.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.rodagolfcourse.com

Villamartin – 18 holur

Erfiður völlur í hæðóttu landslagi sem reynir mjög á hæfni golfarans og er óhætt að segja að það þurfi að nota allar kylfurnar í pokanum. Þessi völlur hefur verið notaður á Evrópsku mótaröðinni.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.villamartingolfclub.com/en

Las Ramblas – 18 holur

Hönnuðurinn Pepe Gancendo hefur hlotið mikið lof fyrir mikla útsjónarsemi við útfærslu vallarins í þessu mikla landslagi, umhverfið er vaxið furutrjám og svo náttúrulegum vatnsfarvegum og niðurstaðan er óhjákvæmilega ákaflega krefjandi völlur.  Mikið er um vatnshindranir sem gera golfurum erfitt um vik. Þetta er völlur sem golfarar annað hvort elska eða hata. Eitt er víst að það er nauðsynlegt að vera með nóg af golfkúlum.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.lasramblasgolf.com/en

©Viva Fortuna ehf. kt: 510315-2270
Verslunarmiðstöðin Fjörðurinn – 2.hæð, Fjarðargötu 13-15, 220 Hafnarfjörður
Sími + 354 558-5858 – bokun@sumarhusaspani.is
Fylgdu okkur á samfélagsmiðlum